Akranes
Akranes er stærsta bæjarfélagið á Vesturlandi þar sem búa rúmlega 7.400 manns. Það tekur einungis um 45 mín að keyra frá Reykjavík upp á Akranes ef farið er um Hvalfjarðargöng. Daglegar strætisvagnaferðir eru á milli Reykjavíkur og Akraness.
Strandlengjan meðfram Akranesi er sérlega fjölbreytt og skemmtileg. Langisandur er með sinn ljósa sand þar sem hægt er að byggja sandkastala af öllum stærðum og gerðum, njóta útsýnis eða baða sig í Guðlaugu, heitri náttúrulaug sem staðsett er í grjótgarðinum á Langasandi. Á Breiðinni á Akranesi er að finna tvo fallega vita og er útsýni þaðan mjög fagurt. Árið 1918 var byggður steinsteyptur viti yst á Syðriflös á Akranesi eftir teikningu Thorvalds Krabbe verkfræðings. Ljóshúsið var smíðað úr járnplötum úr Goðafossi sem strandaði undir Straumnesfjalli árið áður. Árin 1943 - 1944 var reistur nýr 19,2 metra hár viti eftir teikningu Axels Sveinssonar verkfræðings. Gaman er að fara upp í nýja vitann og er útsýnið úr honum einstakt. Haldnir hafa verið ýmsir viðburðir í nýja vitanum tónleikar og listasýningar.
Á Safnasvæðinu að Görðum er hægt að sjá fjölda báta, gömul hús með sál, einstakt steinasafn og Íþróttasafn Íslands sem sómir sér vel í íþróttabænum Akranesi. Skógræktin og mjög góður 18 holu golfvöllur, Garðavöllur, eru í næsta nágrenni við Safnasvæðið.
Á Akranesi eru rekin gistiheimili, tjaldsvæði, veitinga- og kaffihús, söfn sem bjóða heimamenn sem og ferðalanga velkomna. Í bænum er einnig að finna ýmsar gönguleiðir og sundlaug.
View