Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Bæir og þorp

Akranes
Akranes er stærsta bæjarfélagið á Vesturlandi þar sem búa rúmlega 7.400 manns. Það tekur einungis um 45 mín að keyra frá Reykjavík upp á Akranes ef farið er um Hvalfjarðargöng. Daglegar strætisvagnaferðir eru á milli Reykjavíkur og Akraness.   Strandlengjan meðfram Akranesi er sérlega fjölbreytt og skemmtileg. Langisandur er með sinn ljósa sand þar sem hægt er að byggja sandkastala af öllum stærðum og gerðum, njóta útsýnis eða baða sig í Guðlaugu, heitri náttúrulaug sem staðsett er í grjótgarðinum á Langasandi. Á Breiðinni á Akranesi er að finna tvo fallega vita og er útsýni þaðan mjög fagurt. Árið 1918 var byggður steinsteyptur viti yst á Syðriflös á Akranesi eftir teikningu Thorvalds Krabbe verkfræðings. Ljóshúsið var smíðað úr járnplötum úr Goðafossi sem strandaði undir Straumnesfjalli árið áður. Árin 1943 - 1944 var reistur nýr 19,2 metra hár viti eftir teikningu Axels Sveinssonar verkfræðings. Gaman er að fara upp í nýja vitann og er útsýnið úr honum einstakt. Haldnir hafa verið ýmsir viðburðir í nýja vitanum tónleikar og listasýningar.   Á Safnasvæðinu að Görðum er hægt að sjá fjölda báta, gömul hús með sál, einstakt steinasafn og Íþróttasafn Íslands sem sómir sér vel í íþróttabænum Akranesi. Skógræktin og mjög góður 18 holu golfvöllur, Garðavöllur, eru í næsta nágrenni við Safnasvæðið.   Á Akranesi eru rekin gistiheimili, tjaldsvæði, veitinga- og kaffihús, söfn sem bjóða heimamenn sem og ferðalanga velkomna. Í bænum er einnig að finna ýmsar gönguleiðir og sundlaug.
Bifröst í Borgarfirði
Bifröst í Borgarfirði er háskólaþorp sem byggir á gömlum merg. Háskólinn á Bifröst á rætur að rekja til Samvinnuskólans sem var stofnaður árið 1918 í Reykjavík en sumarið 1955 var skólinn fluttur að Bifröst. Þar er rekið hótel og veitingasala. Fram til 1990 var skólinn deild innan Sambands íslenskra samvinnufélaga og í eigu þess. Síðan þá hefur skólinn verið sjálfseignarstofnun.  Skólinn hefur breyst mikið frá stofnun og hafa þær breytingar verið í takt við breyttar aðstæður og auknar menntunar­kröfursamfélagsins.  Margar náttúruperlur eru í næsta nágrenni staðarins og einstaklega fallegar gönguleiðir eru þar í kring. Meðal annars í átt að Hreðavatni og gígurinn Grábrók er í næsta nágrenni. Golfvöllurinn Glanni, sem er 9 holu völlur, er einnig skammt frá. Frá Bifröst til Reykjavíkur eru um 107 km.
Borgarnes
Borgarnes er afar fagurt bæjarstæði með holtum sínum og klettum. Þar má finna flest það sem heillar ferðamanninn og fullnægir þörfum hans. Eins og magnaða náttúru, fuglalíf, gönguleiðir, veitingastaði, kaffihús, hótel, gistiheimili, farfuglaheimili, tjaldsvæði, söfn, setur, sundlaug og 18 holu golfvöllur, Hamarsvöllur, er rétt fyrir ofan bæinn.   Bærinn tengist Egilssögu órjúfanlegum böndum. Höfuðpersóna Eglu, Egill Skallagrímsson, kemur víða við í örnefnum staðarins og meðal annars bera götur í elsta hluta hans, nöfn persóna tengdum Agli, eins og Egilsgata, Skallagrímsgata, Brákarbraut og fleiri. Fyrr á tíð bar nesið nafnið Digranes.  Frá Borgarnesi eru meðal annarra tónskálið Anna Þorvaldsdóttir, Halldór Jónsson arkitekt, systir hans listamaðurinn Blaka-Guðrún Laufey Jónsdóttir og Halldór E. Sigurðsson sem beitti sér fyrir byggingu Borgarfjarðarbrúarinnar.  Í skrúðgarði bæjarins, Skallagrímsgarði, er minnisvarði sem sýnir Egil flytja lík Böðvars sonar síns, sem drukknaði í Hvítárósum. Þar er gott að njóta útivistar fyrir alla aldurshópa. Jafnvel að borða nesti og hvíla sig.  Sundlaugin í Borgarnesi er skammt frá Skallagrímsgarði og er afar fjölsótt, bæði af ungum sem eldri, heimamönnum sem gestum. Hægt er að ganga í laugina beint úr garðinum. Þar er inni- og útisundlaug, rennibrautir, heitir pottar og eimbað svo allir aldurshópar finna þar eitthvað við sitt hæfi.   Í einu af elstu húsum bæjarins er Landnámssetur Íslands til húsa, skammt frá Brákarey. Þar er veitingasala, sýningar og verslun og hægt að kynnast Egilssögu og landnámssögunni í nútímaútfærslu. Listaverkið Brák, eftir Bjarna Þór Bjarnason, er rétt þar við, skammt frá Brákarsundi. Þar eru einnig tvær klettaeyjar, Brákareyjar sem kenndar er við Þorgerði brák, ambátt á Borg, sem annaðis Egil fyrstu æviár hans.  Mjög fögur og auðveld gönguleið er frá Brákarsundi meðfram ströndinni yfir í Englendingavík, þar sem Englendingar hófu verslun fyrir margt löngu og hýsti síðar höfuðstöðvar og verslun Kaupfélags Borgfirðinga. Í víkinni eru merk verslunarhús frá fyrri tíma sem gerð hafa verið upp. Þar er nú samnefndur veitingastaður og leikfangasafn. Frá Englendingavík er örstutt að rölta yfir í Bjössaróló, skemmtilegan heimatilbúinn leikvöll sem á engan sinn líka, þar sem börn af öllum aldri geta skemmt sér í fallegu umhverfi.  Safnahúsið í Borgarnesi býður upp á ýmsar styttri sýningar, bæði tengdar byggðasafninu og listasafni. Auk þess er mjög skemmtilegt bókasafn sem gaman er að heimsækja. 
Búðardalur í Dölum
Búðardalur í Dölum er þjónustumiðstöð Dalanna. Þar er matvöruverslun, blómabúð, handverksverslun og ýmis þjónustufyrirtæki, heilsugæsla og grunn- og leikskóli. Á seinni árum hefur Búðardalur ekki síst orðið þekktur fyrir ostagerð en MS hefur verið með vinnslustöð þar í mörg ár. Allir mygluostar MS eru framleiddir þar eins og Dala Hringur, Bónda Brie, Dala Auður, Höfðingi, Kastali og margir fleiri.  Gamla kaupfélagshúsið við höfnina í Búðardal hefur verið gert upp og nefnist nú Leifsbúð. Þar er boðið upp á mismunandi sýningar, kaffihús og upplýsingamiðstöð. Í Leifsbúð er einnig Vínlandssetur þar sem sögum af landafundum Eiríks rauða og Leifs heppna Eiríkssonar á Grændlandi, Kanada og í Bandaríkjunum, eru gerð skil í nýrri sýningu sem samanstendur af myndverkum tíu þekktra íslenskra myndlistarmanna. Þar ferðast gesturinn um söguna með hljóðleiðsögn og skoðar um leið töfraheim sýningarinnar.   Í Búðardal er einnig tjaldsvæði, gistiheimili og veitinga- og kaffihús ásamt upplýsingamiðstöð Dalirnir eru sögufrægt hérað þar  er meðal annars sögusvið Laxdælu og Sturlungu. Eiríksstaðir í Haukadal eru 17 km frá Búðardal. Að Eiríksstöðum er tilgátuhús byggt á rústum að öllum líkindum frá tíma Eiríks rauða og Þjóðhildar, foreldra Leifs heppna. Þar er hægt að kynnast víkingatímanum á lifandi hátt, leiðsögumenn klæðast víkingaklæðum og kynna fornt handverk um leið og þeir segja sögu staðarins. 
Grundarfjörður
Grundarfjörður á Snæfellsnesi er heimabær Kirkjufells sem er eitt af þekktustu fjöllum Íslands ef ekki heimsins alls. Ekki er óalgengt að erlendir ljósmyndarar heimsæki Ísland í þeim tilgangi einum að mynda þetta einstaka fjall. Kirkjufell hefur meira að segja farið með hlutverk í stórum Hollywood myndum. Þegar ferðamenn, og þeim fer fjölgandi, hafa sett lokið á linsuna við Kirkjufellið komast þeir fljótt að því að Grundarfjörður hefur ekki einungis upp á stórkostlega fallegt fjall að bjóða. Umlukin stórkostlegri náttúru með fegurstu fossum landsins og stórkostlegu dýralífi kúrir bærinn við fjallsræturnar þar sem Helgrindur tróna við himinn.  Ekki er óalgengt að sjá vinsæla gesti úr hafi líta við og sýna sig. Má þar helst nefna seli og háhyrninga og stundum sést til Hafarnarins á flugi. Á fallegum sumardögum geta gestir farið í siglingu, notið stórfenglegs útsýnis, rennt fyrir fisk, kíkt á lunda og aðra sjófugla. Ef hafið heillar ekki er hægt að fara í hringferð um Snæfellsnesið. Segja má að Grundarfjörður sé miðbær Snæfellsness, liggur mitt á milli Stykkishólms og Ólafsvíkur á norðanverðu Snæfellsnesi. Í bænum er mikið úrval af gististöðum, hótel, hostel, heimagisting, sumarhús og svo auðvitað tjaldsvæðið upp með ánni. Sundlaugin er aðeins einn af áhugaverðri afþreyingu sem Grundarfjörður hefur upp á að bjóða. Gönguleiðir liggja upp í fjallgarðinn, stuttar og langar, sumar yfir í Staðarsveit. Einnig má nefna golfvöllinn, hestaleigur, kajakleigu, kaffihús, veitingastaði og upplýsingamiðstöð ferðamanna. Matvöruverslun, áfengisverslun og apótek eru á sama stað og bensínstöð og stoppistöð Strætó. Þrátt fyrir að flestir ferðamenn komi landleiðina þá koma þúsundir á hverju ári með tugum skemmtiferðaskipa sem leggja að í Grundarfjarðarhöfn. Á bæjarhátíðinni, Á góðri stund, sem haldin er síðustu helgina í júlí, skrýðist bærinn hverfalitunum sem eru rauður, blár, gulur og grænn. Hátíðin er sannkölluð fjölskylduhátíð þar sem gestir á öllum aldri ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Grundarfjörður tekur vel á móti ykkur. Verið velkomin.
Hellissandur
Hellissandur á Snæfellsnesi er vestast á nesinu norðanverðu. Þar er hótel, tjaldsvæði, veitinga- og kaffihús og söfn. Sjóminjasafn er á Hellissandi og þar er meðal annars elsta áraskip sem til er á Íslandi, Bliki, en hann var smíðaður 1826. Skammt frá þorpinu eru margar helstu náttúruperlur sem Snæfellsnes hefur upp á að bjóða.     Á Hellissandi var og er mikill útgerðarstaður en verslunarhöfn var á Rifi. Tvær aðallendingar voru á Hellissandi, Brekknavör og Hallsbæjarvör en í innri hlutanum var Keflavíkurvör. Allar voru lendingarnar hættulegar vegna brims. Keflavíkurvör er friðlýst og sjást þar djúpar skorur eftir kili bátanna.  Elsti hluti þorpsins er á bökkunum við sjóinn og þar var byggðin í kringum Brekknavör. Sjómenn gerðu að aflanum í hellisskúta, Bennuhelli sem var í fjörunni undir snarbröttum hraunbökkum. Af þessum helli er nafn þorpsins dregið. Hellissandur varð löggiltur verslunarstaður 1891 og skömmu síðar var fyrsta verslunin sett á fót, útibú frá fyrirtækinu Rang og Riis.   Á svæðinu milli Hellisands og Rifs er mikil fuglaparadís og eitt mesta kríuvarp á landinu og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er við bæjardyrnar. 
Hvanneyri í Borgarfirði
Hvanneyri er vaxandi, lítið þéttbýli í Borgarfirði, þar er Landbúnaðarháskóli Íslands með sínar höfuðstöðvar. Einnig eru starfrækt á staðnum Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið, verslun með handverk úr handunninni, íslenskri ull. Landbúnaðarháskóli Íslands var stofnaður var árið 2005 við samruna nokkurra stofnanna. Búnaðarskóli fyrir Suðuramtið var stofnaður á Hvanneyri árið 1889 og var einn nemandi skráður í hann fyrsta árið. Margt breyttist í starfi skólans 1907, þá skipti hann meðal annars um nafn og hét eftir það, Bændaskólinn á Hvanneyri. Hvanneyrartorfan, sem inniheldur gömlu skólahúsin, fjósin, kirkjuna, íþróttahús og Skemmuna, er friðuð vegna sérstöðu sinnar. Þar er einstakt safn verka fyrstu íslensku húsameistaranna, þeirra Rögnvaldar Ólafssonar, Einars Erlendssonar og Guðjóns Samúelssonar. Mikilvægi þessara húsa er ekki aðeins bundin við Hvanneyri eða Borgarbyggð, heldur landsins alls.   Hvanneyri var friðlýst sem búsvæði árið 2003 og stækkað árið 2011 og fékk friðaða svæðið nafnið Andakíll. Þar hefur blesgæsin viðkomu á túnum staðarins bæði vor og haust og er hún algjörlega friðuð. Almenningi er heimil ganga um svæðið til skoðunar og fróðleiks.  Kirkja hefur staðið á Hvanneyri í margar aldir. Núverandi kirkja var vígð árið 1905 og er í eigu skólans á staðnum, sem er líklega einstakt. Fyrri kirkja fauk árið 1902 og neitaði söfnuðurinn að byggja nýja kirkju. Vesturamtið byggði þó kirkju og afhenti skólanum til eignar og umsjár árið 1905. Kirkjuna teiknaði Rögnvaldur Ólafsson, innri skreytingar eru gerðar af Grétu Björnsson og altaristaflan, sem er frá árinu 1923, er máluð af Brynjólfi Þórðarsyni listmálara og sýnir Krist í nálægu landslagi. Hvanneyrarjörðin er í landnámi Skallagríms Kveldúlfssonar, en þar bjó fyrstur Grímur hinn háleyski Þórisson sem Skallagrímur gaf land fyrir sunnan fjörð (Borgarfjörð).  
Ólafsvík á Snæfellsnesi
Ólafsvík á Snæfellsnesi er útgerðarstaður með góða höfn. Þar er gamalt pakkhús frá 1844 sem stendur í miðbænum og er nú friðlýst. Þar er nú minjasafn sem sýnir verktækni liðins tíma. Í Ólafsvík er upplýsingamiðstöð, hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, veitingahús, safn, sundlaug og 9 holu golfvöllur.  Í Bæjargili er fallegur foss, Bæjarfoss og stutt er frá Ólafsvík í Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, ýmsar perlur Snæfellsness og á Snæfellsjökul sjálfan. Snemma myndaðist byggð í Ólafsvík því lendingin var góð og stutt á gjöful fiskimið og var staðurinn eitt af fjölmennari sjávarþorpum lengi vel. Einnig er Ólafsvík elsti löggilti verslunarstaður landins og hlaut þau réttindi 1687. Ólafsvík varð því á 17. og 18. öld talsvert stór verslunar- og fiskverkunarstaður. Voru um langa hríð beinar siglingar milli Ólafsvíkur og Danmerkur og jafnvel til Spánar. Þekkt skip sem var í förum frá Ólafsvík er skútan Svanurinn sen oftast var kallaður Ólafsvíkur-Svanurinn. Hann var í förum í samfellt 120 ár en strandaði í Ólafsvík árið 1891. 
Stykkishólmur
Stykkishólmur á Snæfellsnesi á sér yfir 400 ára sögu sem verslunarstaður og hafa mörg gömul hús verið gerð upp og eru mikil bæjarprýði. Í bænum eru hótel, veitingastaðir, tjaldstæði og söfn sem áhugavert er að skoða, ásamt afar skemmtilegu bæjarstæði. Árið 1845 hóf Árni Thorlacius veðurathuganir þar og er þar elsta veðurathugunarstöð landsins. Fyrir utan lögreglustöðina er minnismerki um veðurathugunarstöðina og þar er hægt að fylgjast með veðurtölum dagsins. Mikil áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu þjónustu í Stykkishólmi sem nýtist ferðamönnum vel. Á staðnum má finna hótel, farfuglaheimili, heimagistingar,tjaldsvæði, fjölbreytt veitinga- og kaffihús, söfn, sundlaug með einstöku vatni, bátsferðir um fjörðinn og 9 holu golfvöll. Frá Stykkishólmi til Reykjavíkur eru 172 km.  Umhverfismál eru í hávegum höfð í Stykkishólmi. Árið 2003 fékk höfnin í Stykkishólmi Bláfánann og var það í fyrsta skipti að höfn fékk Bláfánann á Íslandi, og í janúar 2008 hófust íbúar svo handa við að flokka allt sorp í svokallað þriggja tunnukerfi. Að auki hafa öll sveitarfélögin á Snæfellsnesi sameiginlega fengið umhverfisvottun frá Earth Check og er það í fyrsta skipti á heimsvísu sem slíkt er gert. Árið 2019 var vottunin svo endurnýjuð í 10. sinn og er svæðið því með Platínu-vottun.  Stykkishólmsbær var einnig útnefndur EDEN-gæðaáfangastaður í Evrópu 2011 fyrir varðveislu og endurnýjun menningarminja og metnaðarfulla stefnu í sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu. Viðurkenninguna fær bæjarfélagið vegna markvissrar uppbyggingar gömlu húsanna í bænum sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga og öðlast nýtt hlutverk í ferðaþjónustu, þar sem sjálfbærni- og umhverfishugsun er í forgrunni. 
Reykholt í Borgarfirði
Reykholt í Borgarfirði er lítið þorp og einn merkasti sögustaður landsins. Líkast frægast vegna búsetu Snorra Sturlusonar 1206-1241, eins nafnkunnasta höfundar, skálds og fræðimanns landsins. Í Reykholti er ýmislegt að skoða og uppgötva fyrir ferðalanga hvort sem áhugi er á sögu, útivist, fornminjum, mat og drykk eða tónlist.  Snorralaug í Reykholti er forn, friðlýst laug, kennd við Snorra þótt Landnáma segi að á staðnum hafi verið laug frá árinu 960. Vatni er veitt í laugina um lokaðan stokk úr hvernum Skriflu. Við Snorralaug eru varðveitt, að hluta, hlaðin jarðgöng sem að líkindum hafa legið til bæjar Snorra og verið flóttaleið á tímum hans. Töluverður jarðhiti í Reykholti, eins og nafnið ber með sér, sem m.a. er nýttur til húshitunnar og gróðurhúsaræktunar. Kirkjur hafa staðið í Reykholti frá upphafi kristni. Þar eru nú tvær kirkjur. Sú eldri er timburkirkja. Við endurbætur á henni var tekið var mið af upprunalegri gerð kirkjunnar. Meðal annars þurfti að lyfta kirkjunni af grunni sínum til þess að hægt væri að laga undirstöðurnar. Predikunarstóllinn er jafngamall kirkjunni og var orgelið keypt til kirkjunnar frá Vesturheimi árið 1901. Kirkjan er öllum opin.   Uppbygging nýrrar kirkju, með áföstu Snorrasafni og fræðasetri, hófst 1988 og lauk með vígslu árið 1996. Kirkjan þykir afburðagóð til hljómleikahalds af ýmsum toga og er öflugt tónlistarlíf í kirkjunni, m.a. Reykholtshátíð sem haldin er í lok júlí ár hvert.   Reykholtsskógur er skemmtilegt útivistarsvæði með mörgum stígum. Í skóginum má finna ber og sveppi, fallega flóru og vísir að merktu trjásafni. Forn þjóðleið liggur meðfram og í gegnum skóginn.   Höskuldargerði, hlaðið úr grjóti og söðlabúr með torfþaki, var gert fyrir ríðandi umferð á staðinn. Tilvalið er fyrir gesti Reykholtsstaðar að ganga um skóginn og njóta kyrrðar og útvistar á sögustað.  Snorrastofa í Reykholti býður upp á sýningar, leiðsögn og fyrirlestra. Fosshótel er rekið í Reykholti  
Rif á Snæfellsnesi
Rif á Snæfellsnesi er lítið þorp á norðanverðu nesinu. Það hét að fornu Hávarif eða Háarif en er nú aldrei kallað annað en Rif. Þar er starfrækt gistihús í 120 ára gömlu húsi ásamt kaffihúsi.  Í Rifi var áður mesta fiskveiði- og verslunarhöfn á Snæfellsnesi. Framburður Hólmkelsár eyðilagði höfnina svo öll útgerð lagðist þar niður. Nú hefur verið gerð þar góð og varanleg höfn svo Rif hefur endurheimt sína fornu frægð.  Við Rif er mikið kríuvarp sem talið er hið mesta í heimi sem sannarlega er vert að skoða.  Árið 1497 drápu enskir 1467 drápu enski verslunarmenn Björn Þorleifsson hirðstjóra og 7 aðra menn í Rifi. Sagan segir að Ólöf Loftsdóttir, kona hans, hafi sagt er henni bárust tíðindin: "Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og hefna." Sú setning hefur verið i minnum höfð síðan.