Hellissandur
Hellissandur á Snæfellsnesi er vestast á nesinu norðanverðu. Þar er hótel, tjaldsvæði, veitinga- og kaffihús og söfn. Sjóminjasafn er á Hellissandi og þar er meðal annars elsta áraskip sem til er á Íslandi, Bliki, en hann var smíðaður 1826. Skammt frá þorpinu eru margar helstu náttúruperlur sem Snæfellsnes hefur upp á að bjóða.
Á Hellissandi var og er mikill útgerðarstaður en verslunarhöfn var á Rifi. Tvær aðallendingar voru á Hellissandi, Brekknavör og Hallsbæjarvör en í innri hlutanum var Keflavíkurvör. Allar voru lendingarnar hættulegar vegna brims. Keflavíkurvör er friðlýst og sjást þar djúpar skorur eftir kili bátanna.
Elsti hluti þorpsins er á bökkunum við sjóinn og þar var byggðin í kringum Brekknavör. Sjómenn gerðu að aflanum í hellisskúta, Bennuhelli sem var í fjörunni undir snarbröttum hraunbökkum. Af þessum helli er nafn þorpsins dregið.
Hellissandur varð löggiltur verslunarstaður 1891 og skömmu síðar var fyrsta verslunin sett á fót, útibú frá fyrirtækinu Rang og Riis.
Á svæðinu milli Hellisands og Rifs er mikil fuglaparadís og eitt mesta kríuvarp á landinu og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er við bæjardyrnar.