Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Yst á Snæfellsnesi trónir hinn dularfulli Snæfellsjökull og þar var Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull stofnaður árið 2001. Hlutverk þjóðgarðsins er að vernda náttúru og landslag, vistkerfi, dýralíf sem og menningararf svæðisins.
 
Þjóðgarðurinn er fyrsti þjóðgarður landsins sem nær að sjó og hefur þá sérstöðu að geyma minjar frá útræði fyrri alda. Landslagið á Snæfellsnesi er magnþrungið og margbreytilegt. Ströndin er fjölbreytt þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur með ljósum eða svörtum sandi og snarbrattir sjávarhamrar með iðandi fuglalífi um varptímann.
 
Láglendið innan þjóðgarðsins er að mestu hraun sem runnið hafa frá Snæfellsjökli eða eldvörpum á láglendi og eru víðast þakin mosa en inn á milli má finna fallega, skjólsæla bolla með gróskumiklum gróðri. Láglendið á sunnanverðu Snæfellsnesi er forn sjávarbotn sem risið hefur frá því ísöld lauk. Hamrabeltin upp af láglendinu eru því gamlir sjávarhamrar.
 
Snæfellsjökull gnæfir tignarlegur yfir umhverfinu og og undirfjöll hans eru margbreytileg að lögun. Ofar í landinu og nær Jökulhálsi eru vikurflákar og land sem er nýlega komið undan jökli.
 
Almenningi er heimil för um þjóðgarðinn en ganga skal snyrtilega um svæðið og fylgja öllum umgengnisreglum sem gilda eins og hirða rusl og fylgja merktum leiðum og skipulögðum stígum. Umferð reiðhjóla er aðeins heimil á skilgreindum hjólastígum og vegum og lausaganga hrossa og hunda er ekki heimil. Einnig er óheimilt að kveikja eld á víðavangi þar sem hætta getur stafað af, hvort sem um er að ræða gróður, dýralíf eða mannvirki.
 
Gestastofa þjóðgarðsins er á Malarrifi, sunnanmegin í þjóðgarðinum og Þjóðgarðsmiðstöðin á Hellissandi er norðanmegin þjóðgarðsins. Þar eru starfandi landverðir sem veita upplýsingar og aðstoð. Gestastofur og salernin þar eru opin allt árið.

Áhugaverðir staðir

Djúpalónssandur á Snæfellsnesi
Fiskibyrgi við Gufuskála á Snæfellsnesi
Hólahólar á Snæfellsnesi
Lóndrangar á Snæfellsnesi
Malarrif á Snæfellsnesi
Öndverðarnes á Snæfellsnesi
Saxhóll á Snæfellsnesi
Skálasnagaviti á Snæfellsnesi
Skarðsvík á Snæfellsnesi
Snæfellsjökull á Snæfellsnesi
Svalþúfa og Þúfubjarg á Snæfellsnesi
Vatnshellir á Snæfellsnesi

Þjónusta