Ólafsvík á Snæfellsnesi
Ólafsvík á Snæfellsnesi er útgerðarstaður með góða höfn. Þar er gamalt pakkhús frá 1844 sem stendur í miðbænum og er nú friðlýst. Þar er nú minjasafn sem sýnir verktækni liðins tíma. Í Ólafsvík er upplýsingamiðstöð, hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, veitingahús, safn, sundlaug og 9 holu golfvöllur.
Í Bæjargili er fallegur foss, Bæjarfoss og stutt er frá Ólafsvík í Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, ýmsar perlur Snæfellsness og á Snæfellsjökul sjálfan.
Snemma myndaðist byggð í Ólafsvík því lendingin var góð og stutt á gjöful fiskimið og var staðurinn eitt af fjölmennari sjávarþorpum lengi vel. Einnig er Ólafsvík elsti löggilti verslunarstaður landins og hlaut þau réttindi 1687. Ólafsvík varð því á 17. og 18. öld talsvert stór verslunar- og fiskverkunarstaður. Voru um langa hríð beinar siglingar milli Ólafsvíkur og Danmerkur og jafnvel til Spánar. Þekkt skip sem var í förum frá Ólafsvík er skútan Svanurinn sen oftast var kallaður Ólafsvíkur-Svanurinn. Hann var í förum í samfellt 120 ár en strandaði í Ólafsvík árið 1891.