Borgarnes
- VisitBorgarnes
Borgarnes er afar fagurt bæjarstæði með holtum sínum og klettum. Þar má finna flest það sem heillar ferðamanninn og fullnægir þörfum hans. Eins og magnaða náttúru, fuglalíf, gönguleiðir, veitingastaði, kaffihús, hótel, gistiheimili, farfuglaheimili, tjaldsvæði, söfn, setur, sundlaug og 18 holu golfvöllur, Hamarsvöllur, er rétt fyrir ofan bæinn.
Bærinn tengist Egilssögu órjúfanlegum böndum. Höfuðpersóna Eglu, Egill Skallagrímsson, kemur víða við í örnefnum staðarins og meðal annars bera götur í elsta hluta hans, nöfn persóna tengdum Agli, eins og Egilsgata, Skallagrímsgata, Brákarbraut og fleiri. Fyrr á tíð bar nesið nafnið Digranes.
Frá Borgarnesi eru meðal annarra tónskálið Anna Þorvaldsdóttir, Halldór Jónsson arkitekt, systir hans listamaðurinn Blaka-Guðrún Laufey Jónsdóttir og Halldór E. Sigurðsson sem beitti sér fyrir byggingu Borgarfjarðarbrúarinnar.
Í skrúðgarði bæjarins, Skallagrímsgarði, er minnisvarði sem sýnir Egil flytja lík Böðvars sonar síns, sem drukknaði í Hvítárósum. Þar er gott að njóta útivistar fyrir alla aldurshópa. Jafnvel að borða nesti og hvíla sig.
Sundlaugin í Borgarnesi er skammt frá Skallagrímsgarði og er afar fjölsótt, bæði af ungum sem eldri, heimamönnum sem gestum. Hægt er að ganga í laugina beint úr garðinum. Þar er inni- og útisundlaug, rennibrautir, heitir pottar og eimbað svo allir aldurshópar finna þar eitthvað við sitt hæfi.
Í einu af elstu húsum bæjarins er Landnámssetur Íslands til húsa, skammt frá Brákarey. Þar er veitingasala, sýningar og verslun og hægt að kynnast Egilssögu og landnámssögunni í nútímaútfærslu. Listaverkið Brák, eftir Bjarna Þór Bjarnason, er rétt þar við, skammt frá Brákarsundi. Þar eru einnig tvær klettaeyjar, Brákareyjar sem kenndar er við Þorgerði brák, ambátt á Borg, sem annaðis Egil fyrstu æviár hans.
Mjög fögur og auðveld gönguleið er frá Brákarsundi meðfram ströndinni yfir í Englendingavík, þar sem Englendingar hófu verslun fyrir margt löngu og hýsti síðar höfuðstöðvar og verslun Kaupfélags Borgfirðinga. Í víkinni eru merk verslunarhús frá fyrri tíma sem gerð hafa verið upp. Þar er nú samnefndur veitingastaður og leikfangasafn. Frá Englendingavík er örstutt að rölta yfir í Bjössaróló, skemmtilegan heimatilbúinn leikvöll sem á engan sinn líka, þar sem börn af öllum aldri geta skemmt sér í fallegu umhverfi.
Safnahúsið í Borgarnesi býður upp á ýmsar styttri sýningar, bæði tengdar byggðasafninu og listasafni. Auk þess er mjög skemmtilegt bókasafn sem gaman er að heimsækja.