Hvanneyri í Borgarfirði
Hvanneyri er vaxandi, lítið þéttbýli í Borgarfirði, þar er Landbúnaðarháskóli Íslands með sínar höfuðstöðvar. Einnig eru starfrækt á staðnum Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið, verslun með handverk úr handunninni, íslenskri ull.
Landbúnaðarháskóli Íslands var stofnaður var árið 2005 við samruna nokkurra stofnanna. Búnaðarskóli fyrir Suðuramtið var stofnaður á Hvanneyri árið 1889 og var einn nemandi skráður í hann fyrsta árið. Margt breyttist í starfi skólans 1907, þá skipti hann meðal annars um nafn og hét eftir það, Bændaskólinn á Hvanneyri.
Hvanneyrartorfan, sem inniheldur gömlu skólahúsin, fjósin, kirkjuna, íþróttahús og Skemmuna, er friðuð vegna sérstöðu sinnar. Þar er einstakt safn verka fyrstu íslensku húsameistaranna, þeirra Rögnvaldar Ólafssonar, Einars Erlendssonar og Guðjóns Samúelssonar. Mikilvægi þessara húsa er ekki aðeins bundin við Hvanneyri eða Borgarbyggð, heldur landsins alls.
Hvanneyri var friðlýst sem búsvæði árið 2003 og stækkað árið 2011 og fékk friðaða svæðið nafnið Andakíll. Þar hefur blesgæsin viðkomu á túnum staðarins bæði vor og haust og er hún algjörlega friðuð. Almenningi er heimil ganga um svæðið til skoðunar og fróðleiks.
Kirkja hefur staðið á Hvanneyri í margar aldir. Núverandi kirkja var vígð árið 1905 og er í eigu skólans á staðnum, sem er líklega einstakt. Fyrri kirkja fauk árið 1902 og neitaði söfnuðurinn að byggja nýja kirkju. Vesturamtið byggði þó kirkju og afhenti skólanum til eignar og umsjár árið 1905. Kirkjuna teiknaði Rögnvaldur Ólafsson, innri skreytingar eru gerðar af Grétu Björnsson og altaristaflan, sem er frá árinu 1923, er máluð af Brynjólfi Þórðarsyni listmálara og sýnir Krist í nálægu landslagi.
Hvanneyrarjörðin er í landnámi Skallagríms Kveldúlfssonar, en þar bjó fyrstur Grímur hinn háleyski Þórisson sem Skallagrímur gaf land fyrir sunnan fjörð (Borgarfjörð).