Vinnufundur MAS á Vesturlandi
Markaðsstofur landshlutanna (MAS) eru hluti af opinberu stoðkerfi ferðamála á Íslandi og starfa hver á sínum landshluta; Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Suðurlandi og Reykjanesi. Að auki, á vormánuðum 2023, var stofnuð Markaðsstofa Höfuðborgarsvæðisins. Sjá vefsíðu: markadsstofur.is
Starfsfólk markaðsstofanna vinnur mikið saman að markaðssetningu áfangastaðarins Íslands með áherslu á landsbyggðirnar. Tvisvar á ári eru haldnir vinnufundir sem hafa þann tilgang að efla samstarf landshluta á milli og funda um ýmis sameiginleg mál markaðsstofanna. Í þetta sinn var komið að Vesturlandi að skipuleggja og bjóða hinum landshlutunum heim.
Dagskrá fundarins hófst í Hvammsvík í Kjós þar sem forstöðumenn markaðsstofanna funduðu með Íslandsstofu og fóru yfir áherslur samstarfsins fyrir komandi ár. Að loknum fundi var starfsemi Hvammsvíkur kynnt fyrir hópnum og böðin tekin vandlega út og fengu þau svo sannarlega góða dóma enda þvílík veðurblíða og Hvalfjörðurinn skartaði sínu allra fegursta þennan kalda vetrardag.
Frá Hvammsvík lá leiðin fyrir Hvalfjarðarbotn og áleiðis til Borgarness þar sem Landnámssetur Íslands var heimsótt. Tekið var á móti hópnum með góðum kræsingum, Gísli Einars kynnti sýningu sína, Ferðabók Gísla Einarssonar (en hvorki Eggerts né Bjarna) og starf Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs. Landnámssýningarnar voru þræddar og hópurinn fékk kynningu á starfsemi Landnámsseturs. Því næst lá leið upp í Borgarfjörð þar sem Sturlureykir og Snorrastofa voru heimsótt. Hópurinn fékk góðar viðtökur á báðum stöðum þar sem m.a. voru teknar "selfie" með hestum, smakkað á hverarúgbrauði og farið víða um sagnaheim Snorra Sturlusonar og framtíðarsýn Snorrastofu.
Hópurinn naut góðra veitinga á Hótel Varmalandi að loknum degi og var nóttinni eytt þar í sveitasælunni. Dagskráin endaði loks á góðum vinnufundi í Varmalandi áður en hópurinn tvístraðist og hver og einn hélt af stað í mislangt ferðalag heim í sinn landshluta.