Vinnufundur MAS á Norðurlandi
Starfsfólk markaðsstofa landshlutanna vinnur mikið saman að markaðssetningu áfangastaðarins Íslands með áherslu á landsbyggðirnar. Dagana 21.-22. nóvember var annar af tveimur árlegum vinnufundum haldinn fyrir norðan, á Akureyri og í Mývatnssveit og var áhersla lögð á vetrarferðamennsku.
Markaðsstofur landshlutanna (MAS) eru hluti af opinberu stoðkerfi ferðamála á Íslandi og starfa hver á sínum landshluta; Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Suðurlandi og Reykjanesi. Að auki, á vormánuðum 2023, var stofnuð Markaðsstofa Höfuðborgarsvæðisins. Sjá vefsíðu: markadsstofur.is
Vetrarafþreying í fyrirrúmi
Á þriðjudeginum heimsótti MAS norðlensk fyrirtæki í ferðaþjónustu sem leggja áherslu á vetrarafþreyingu. Fyrsta stopp var hjá hundasleðafyrirtækinu Snow Dogs þar sem hópurinn fékk að knúsa Siberian Husky hunda af öllum stærðum og gerðum á meðan eigendur fóru yfir starfsemina. Hundasleðaferðir eru gríðarlega vinsæl afþreying og er vel bókað hjá þeim langt fram í tímann. Jarðböðin á Mývatni voru heimsótt næst og fékk þar hópurinn kynningu á starfsemi jarðbaðanna og framtíðaráformum en mikil uppbygging er þar í gangi og spennandi tímar framundan. Því næst var litið við hjá ferðaskrifstofunni Geo Travel sem býður upp á fjölbreytt úrval af vetrarafþreyingu, s.s. snjósleðaferðir, jeppaferðir, snjóþrúgugöngur, gönguferðir og hellaferðir. Dagurinn endaði á Sel hótel við Mývatn þar sem farið var yfir sögu hótelsins og brugghúsið skoðað. Fyrirtækið var stofnað 1973 og var upphaflega verslun sem seldi ýmsan varning til ferðamanna og skyndibitastaður. Stöðug uppbygging hefur verið þar í gegnum árin og er þar í dag rekið 54 herbergja hótel, veitingastaður, bar, brugghús og gamla góða verslunin. Sel hótel er gott dæmi um hvernig ferðaþjónusta á Íslandi hefur þróast í gegnum árin með stöðugri uppbyggingu á innviðum og fjölgun ferðamanna.
Á miðvikudeginum var fundað um samstarf markaðsstofanna sem hefur blómstrað á undanförnum árum og samanstendur í dag af fjölda starfsmanna með fjölbreytta þekkingu á sviði ferðaþjónustu og markaðssetningu áfangastaða. Fundurinn hófst með kynningu frá markaðsstofu Höfuðborgarsvæðins sem er að koma sér fyrir og marka stefnu til framtíðarinnar. Ferðamálastofa fór yfir stöðu verkefnisins um kortlagningu gönguleiða, sem hefur verið í gangi að undanförnu og er eitt af þeim verkefnum sem FMST hefur unnið í samstarfi við MAS. Ferðaleiðir voru ræddar og markaðsstofa Norðurlands fór yfir gagnsemi, kosti og áskoranir Norðurstrandarleiðar og Demantshringsins. Að lokum var farið yfir þróun og samræmingu á áfangastaðaáætlunum landshlutanna. Á heimleiðinni var komið við hjá Goðafossi og uppbyggingin sem hefur orðið þar undanfarið skoðuð. Að lokum fór hópurinn í Skógarböðin sem var fullkominn endir á frábærum vinnufundi og áður en vetrarfærðin á heimleiðinni tók við.
Þessa dagana er hópurinn að vinna að skipulagningu á Mannamótum markaðsstofa landshlutanna sem haldið verður í Kórnum í Kópavogi fimmtudaginn 18. janúar 2024.