Opnun Guðlaugar við Langasand á Akranesi
Opnun Guðlaugar við Langasand
Laugin Guðlaug við Langasand á Akranesi var opnuð við hátíðlega athöfn kl. 14:00 þann 8. desember síðastliðinn þar sem Ragnar Baldvin Sæmundsson, formaður skipulags- og umhverfisráðs Akraness flutti opnunarræðu. Fjöldi fólks var viðstatt athöfnina en að henni lokið var gestum boðið að þiggja kaffi og konfekt á Aggapalli og meðlimir Sjóbaðsfélags Akraness vígðu laugina ásamt öðrum gestum.
Guðlaug er steinsteypt mannvirki staðsett í brimvarnargarðinum við Langasand. Laugin er á þremur hæðum, en á efstu hæðinni er útsýnispallur og þar fyrir neðan er m.a. heit setlaug og sturtur. Á fyrstu hæðinni er vaðlaug. Framkvæmdir hófust í lok ágúst 2017 en upphaflega var gert ráð fyrir að verkinu myndi ljúka í lok júní á þessu ári.
„Hugmyndin fyrir Guðlaugu kviknaði útfrá dældum sem myndast umhverfis steina á sandinum, þannig myndast litlar náttúrulegar „laugar“ í flæðarmálinu. Þessa hugmynd tókum við svo áfram og formuðum mannvirki á þremur stöllum í sjóvarnargarðinum sem hver og einn hverfist um stakan stein líkt og á ströndinni. Efst er útsýnispallur sem vísar til skipsstafns, í miðjunni er laugin sjálf sem nýtur útsýnis út á hafið og skjóls frá pallinum fyrir ofan, neðst er svo laug þar sem sjórinn og vatnið frá lauginni fyrir ofan blandast,“ segir Hrólfur Karl Cela arkitekt Guðlaugar í tilkynningu.
„Guðlaug er frábær viðbót hér á Akranesi fyrir bæði heimamenn og gesti og eru við yfirfull af stolti að standa hér í dag að vígja laugina. Guðlaug hefur verið á lista yfir þær framkvæmdir sem Akraneskaupstaður hefur viljað fara í síðustu ár og var það því mikil fengur fyrir okkur að fá 30 m.kr. styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar laugarinnar ásamt 14 m.kr. styrk frá minningarsjóði um hjónin á Bræðraparti,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri í tilkynningu.
Í vetur verður Guðlaug opin alla miðvikudaga og föstudaga milli kl. 16-20 og allar helgar milli kl. 10-14. Gjaldfrjálst verður í laugina til að byrja með og eru búningsklefar á staðnum.