Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Margt um manninn á Matarhátíð á Hvanneyri

Margt um manninn á Matarhátíð á Hvanneyri

Fjölmennt var á Matarhátíð á Hvanneyri síðastliðinn laugardag. Áætlað er að minnst 500 manns hafi sótt viðburðinn og ber sá fjöldi gott vitni um að matarhandverk er vinsælt og vekur athygli!   Matarmarkaður var á staðnum þar sem um 20 aðilar seldu vörur sínar, en framleiðendur komu bæði af Vesturlandi og víðar að.

Á Kránni voru seldar veitingar frá Búgdrýgindum og Kvennfélaginu 19. júní, en einnig voru þar fluttir nokkrir stuttir fyrirlestrar. Hlédís Sveinsdóttir kynnti fyrir gestum hugmyndafræði og fyrirkomulag REKO, Þóra Valsdóttir sagði frá verkefninu Krakkar Kokka sem er á vegum Matís, Eva Margrét Jónudóttir sagði frá hrossakjöti og kostum þessi og Vífill Karlsson leiddi gesti í sannleikan um arðsemi grænmetisræktunar. Einnig komu góðir gestir frá Austurríki, þau Gerald og Katharina sem sögðu frá sínum búskaparháttum, en þau búa eingöngu með kindur til mjólkurframleiðslu og stunda sauðaostagerð. Þau sögðu frá daglegum störfum, frjámögnun og öllu því sem felst í því að vera sauðfjárbóndi í mjólkurframleiðslu í Austurríki. 

Hápunktur matarhátíaðarinnar var verðlaunaafhending í Asknum 2019 - Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki. Þetta er í fyrsta skipti sem keppt er í Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki, og voru 133 vörur skráðar til keppni. Matarauður Íslands styrkti framkvæmd þessarar keppni en Matís sá um allt faglegt utanumhald með keppninni sjálfri, þar sem þrír fagdómarar dæmdu vörurnar í hverjum keppnisflokki. Verðlaun voru veitt í 10 flokkum og voru það 22 keppendur sem fóru heim með verðlaun. Verðlaunahafar fengu verðlaunaskírteini í hverjum flokki auk gull, silfur og brons límmiða með ASKINUM merki keppninnar og ártali, til þess að merkja vörur sínar.  En merkið er hannað er af Önnu Melsteð í ANOK margmiðlun í Stykkishólmi. Nú er um að gera fyrir neytendur að leita eftir merkinu á vörum ef þeir ætla að kaupa sér gott matarhandverk til að njóta um jólin.

Matarhátíðin var haldin í húsunum við gamla skólahlaðið á Hvanneyri og var það einstaklega falleg og skemmtileg umgjörð um þennan viðburð, sem gaf hátíðinni sérstakt yfirbragð og stemningu sem jók ánægju og upplifun gesta. Allur undirbúningur og utanumhald með hátíðinni var í samstarfi Landbúnaðarháskóla Íslands, Matarauðs Vesturlands og Markaðsstofu Vesturlands með styrk frá Sóknaráætlun Vesturlands. Þetta samstarf gekk mjög vel og eru allir ánægðir með hvernig til tókst. Vonandi er Matarhátíð á Hvanneyri komin til að vera.

Markaðsstofa Vesturlands þakkar öllum sem komu að þessari hátíð kærlega fyrir þeirra tillegg og samstarfið við þennan viðburð. 
 
Íslandsmeistarar Asksins 2019 

Bakstur - Gull, Rúgbrauð – Brauðhúsið ehf
Ber, ávextir og grænmeti - Gull, Þurrkaðir lerkisveppir – Holt og heiðar ehf
Ber, ávextir og grænmeti – sýrt - Gull, Pikklaðar radísur – bjarteyjarsandur
Ber, ávextir grænmeti, drykkir - Gull, Aðalbláberjate – Urta islandica ehf
Fiskur og sjávarfang - Gull, Birkireyktur urriði – matarhandverk úr fram-Skorradal
Kjöt og kjötvörur - Gull, Gæsakæfa – Villibráð Silla slf
Kjöt og kjötvörur, hráverkaðar - Gull, Rauðvínssalami – Tariello ehf
Mjólkurvörur - Gull, Sveitaskyr – Rjómabúið Erpsstaðir 
Nýsköpun (2 með gull) - Gull, Bopp – Havarí og Gull, Söl snakk – Bjargarsteinn Mathús
Nýsköpun drykkir - Gull, Glóaldin Kombucha Iceland – Kúbalúbra ehf