Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur opnað fyrir umsóknir
Hægt er að sækja um styrk til framkvæmda á áningarstöðum, útivistar- og ferðaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.
- Að þessu sinni er vilji til að styðja við verkefni og uppbyggingu á minna sóttum svæðum og þar sem áhersla er á lengingu ferðatímabilsins.
Gæðamat, val og styrkveitingar sjóðsins munu því m.a. taka mið af þeirri áherslu í næstu úthlutun.
En sem fyrr er sjóðnum heimilt að veita fjárstyrk allt að 80% af framsettri og rökstuddri fjárhagsáætlun gegn 20% mótframlagi styrkhafa til að fjármagna framkvæmdir og vinna verkefni til að stuðla að:
- Öryggi ferðamanna.
- Náttúruvernd, viðhaldi og uppbyggingu ferðamannastaða og ferðamannaleiða.
- Fjármögnun undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna áðurgreindra framkvæmda.
Mikilvægt er að vanda alla umsóknarvinnu og gera skilmerkilega grein fyrir þeim verkefnum sem sótt er um styrk til að vinna.
Senda þarf inn öll umbeðin gögn og greinargóð fylgiskjöl sem lýsa öllum áherslum og þáttum verkefnisins í máli og myndum – myndir segja meira en mörg orð.
Þetta er mjög mikilvægt til að matsaðilar og úthlutunarnefnd Framkvæmdasjóðsins geti út frá innsendum gögnum gert sér grein fyrir eðli, umfangi og tilgangi hvers verkefnis, til að meta styrkhæfi þess.
Samkvæmt matsblaðinu sem nú verður unnið eftir við gæðamat á innsendum umsóknum, geta umsóknir fengið 0-80 stig í gæðamati úthlutunarnefndarinnar. Megináherslur og skipting stiga er eftirfarandi:
- Mikilvægi náttúruverndar: allt að 20 stig.
- Mikilvægi öryggis ferðamanna: allt að 20 stig.
- Verkefni tilgreint í Áfangastaðaáætlun: allt að 10 stig.
- Áhersla á minna sótt svæði og lengingu ferðatímabils: allt að 10 stig.
- Áhersla á að bæta úr skorti á grunnþjónustu, aðgengi fyrir alla og að auka afköst áfangastaðarins í gestamóttöku: allt að 20 stig.
Umsóknagáttin er opin frá 12.sept. – 15.okt. 2024
Frekari upplýsingar um sjóðinn, skilyrði lánveitenda, umsóknarferlið og gæðamatsblaðið er á upplýsingasíðu sjóðsins: https://www.ferdamalastofa.is/is/studningur/framkvaemdasjodur-ferdamannastada/upplysingasida-um-umsoknir
Hvetjum öll sem eru í uppbyggingahugleiðingum tengt ferðamálum til að skoða hvort möguleiki er á styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Starfsfólk SSV getur líka veitt ráðgjöf og leiðsögn sé þess óskað.