Fundaferð markaðsstofunnar og Broadstone
Markaðsstofa Vesturlands og fulltrúar frá tæknifyrirtækinu Broadstone Network fóru um Vesturlandið dagana 16. og 17. apríl og áttu góða fundi með ferðaþjónustuaðilum á svæðinu.
Fundir voru haldnir á Hótel Laxárbakka, Hótel Vesturlandi, í Þjóðgarðsmiðstöðinni á Hellissandi og Narfeyrarstofu. Þó nokkrir mættu á fundina fjóra og var hljóðið í fólki almennt gott og jákvætt. Starfsfólk markaðsstofunnar renndi yfir helstu verkefnin sem eru í deiglunni og fulltrúar Broadstone kynntu nýstárlega lausn sem er sérhönnuð fyrir ferðaþjónustuna til að koma sér og sinni þjónustu á framfæri á skemmtilegan og skilvirkan hátt.
Broadstone er fyrirtæki stofnað af aðilum úr ferðaþjónustu með það markmið að búa til markaðs- og söluefni sem er sérhannað útfrá þörfum ferðaþjónustu. Þau nýta myndefni og myndbrot á gagnvirkan hátt, ekki svo ósvipað tölvuleik, til þess að selja afþreyingu, hótel og áfangastaði ferðaþjónustu. Broadstone og Markaðsstofa Vesturlands hafa verið í samtali varðandi mögulegt samstarf sín á milli og við ferðaþjónustufyrirtæki á Vesturlandi en Broadstone er nú þegar að vinna að markaðs- og söluefni fyrir nokkur fyrirtæki í landshlutanum. Nánar um Broadstone Network hér.