Afmælisráðstefna AECO í Osló
AECO (Association of Arctic Expedition Cruise Operators) eru alþjóðleg samtök leiðangurs- og skemmtiferðaskipa sem leggja áherslu á ábyrga, umhverfisvæna og örugga ferðaþjónustu á norðurslóðum. Samtökin fagna 20 ára afmæli í ár en samtökin hafa starfað síðan 2003 og í tilefni þess var blásið til afmælisráðstefnu í Osló þar sem saman komu fulltrúar frá AECO, Svalbarða, Grænlandi, Norður-Kanada og Íslandi og kynntu sín svæði.
Ráðstefnan hófst með málþingi þar sem flutt voru áhugaverð erindi um verkefni sem hafa verið unnin í tengslum við eða í samstarfi við AECO og var þar fulltrúi frá áfangastaða- og markaðsstofu Vesturlands með kynningu á verkefninu „Móttaka skemmtiferðaskipa og skipafarþega á Snæfellsnesi" sem hefur verið í gangi síðan á vormánuðum 2023. Þess má geta að samskonar verkefni var unnið með Akraneskaupstað árið 2022. Einnig var áfangastaðurinn Vesturland kynntur á stuttum fundum með ferðaskipuleggjendum, ferðaskrifstofum og skipafyrirtækjum sem sóttu ráðstefnuna.
Á ráðstefnunni var stofnaður samtals- og samráðsvettvangur fyrir fulltrúa áfangastaðavinnu á norðurslóðum þar sem þeir aðilar sem vinna að skipulagi, uppbyggingu og stýringu áfangastaða geta átt samtal, miðlað þekkingu og unnið saman. Vettvangurinn ber nafnið JADA (Joint Arctic Destination Arena) og undirritaði Margrét Björk samstarfsyfirlýsingu fyrir hönd Vesturlands um þátttöku í JADA.