Starfsfólk Markaðsstofa landshlutanna kom saman austur á landi til skrafs og ráðagerða 30.-31. október.
Starfsfólk Markaðsstofu Vesturlands að njóta útsýnis af Vatnsskarði Eystra
Starfsfólk Markaðsstofa landshlutanna kemur saman 1-2 á ári til að efla tengslin, ræða sameiginleg verkefni og ýmis málefni sem brenna á ferðaþjónustunni. Í þetta sinn var Austurland sótt heim í blíðskaparveðri. Starfsfólk Austurbrúar sá um allt skipulag og leiddi hópinn í vettvangsferð um Egilstaði og Borgarfjörð eystri ásamt því að kynna þau verkefni sem eru í deiglunni hjá þeim.
Á Egilstöðum var Sláturhúsið heimsótt en það hýsir í dag menningarmiðstöð og er hlutverk þess að efla lista- og menningarstarf á Austurlandi. Þar er m.a. að finna sýningu um Kjarval, muni hans og veru hans á Austurlandi. Einnig eru þar salir þar sem settar eru upp listsýningar, leiksýningar og ýmsir menningarviðburðir.
Að lokinni heimsókn í sláturhúsið lá leiðin yfir á Borgarfjörð Eystri þar sem gengið var upp á Hafnarhólmann sem er einn vinsælasti varpstaður lundans á Íslandi. Þar var einnig litið inn í Hafnarhúsið þar sem hópurinn fékk kynningu á hönnun hússins, sögu þess og starfsemi. Því næst heimsótti hópurinn Blábjörg Resort sem staðsett er í Bakkagerði. Mikil uppbygging hefur verið á undanförnum árum í Bakkagerði í kringum Blábjörg, þar hefur verið opnaður veitingastaðurinn Frystihúsið, byggt upp spa og sett á laggirnar KVH Brugghús þar sem eini löglegi landinn á Íslandi er bruggaður ásamt fjölbreyttum tegundum af bjór og gini. Það væsir ekki um ferðamanninn á Borgarfirði Eystri þar sem allt er til alls í dásamlegri náttúru og útsýnið á leiðinni þangað er eitthvað annað fallegt.
Þegar komið var aftur á Egilstaði heimsótti hópurinn Hreindýragarðinn í Vínlandi þar sem hreindýrstarfarnir Garpur og Mosi búa og Hreindís litla sem kom aðeins tveggja daga gömul í vist eftir að hafa fundist yfirgefin á fjöllum. Frá Vínlandi lá leiðin í Vök þar sem hópurinn átti saman notalega stund í lok dagsins.
Gist var á Gistihúsinu - Lake Hotel Egilstaðir sem staðsett er á bökkum Lagarfljótsins. Byggingin hýsti áður stórbýlið Egilstaði og nær saga gistingar þar aftur til ársins 1884. Mikil uppbygging hefur þar átt sér stað síðan og stendur reisuleg byggingin vel undir kröfum um öll helstu gæði gististaða nútímans.
Seinni dagurinn fór í fundarhöld þar sem sameiginleg verkefni markaðsstofanna og málefni líðandi stundar voru rædd áður en mannskapurinn hélt heim á leið í sína landshluta.
Smelltu á myndirnar til að fara í albúm