Vesturland á meðal 17 áhugaverðustu staða í heimi að mati CNN-Travel
Fjölmiðlarisinn CNN-Travel útnefndi fyrr í vikunni 17 athyglisverðustu staði í heimi fyrir ferðafólk að skoða á þessu ári, eða „17 best places to visit in 2017.“ Þar var Vesturland í hópi fjölmargra áhugaverðra staða í öllum byggðum heimsálfum. Þrír aðrir staðir í Evrópu eru tilnefndir. Það eru Albanía, Bordeoux í Frakklandi og Árósar í Danmörku. Í umsögn CNN-Travel segir m.a. að Reykjavík hafi að undanförnu verið vinsæl ferðamannaborg en gefið í skyn að fölva sé farið að slá á fegurðina sökum offjölgunar ferðafólks. Þar séu m.a. lundabúðir á hverju götuhorni. Mælt er með ferðum frá höfuðborginni til að sjá vatnsföll, hveri og óspillta náttúru á landsbyggðinni. Þar sé mettunin ekki eins mikil og í höfuðstaðnum.
Í umsögn CNN-Travel um Vesturland segir að nýverið hafi verið opnuð ísgöng í Langjökli sem séu þess virði að leggja leið sína til. Þá er sagt frá því að búið sé að opna aðgengi í stærsta hraunhelli landsins, Víðgelmi í Hallmundarhrauni. Fólki er jafnframt bent á að skoða fossinn Glym í Hvalfirði, hinn myndræna vita á Breiðinni á Akranesi, eyjarnar á Breiðafirði og Þjóðgarðinn Snæfellsjökul.
„Þetta er staðfesting á að síðustu verðlaun sem féllu Vesturlandi í skaut, frá Lonely Planet, voru ekki tilviljun og Vesturland er komið á kortið. Af þessum sökum megum við gera ráð fyrir mikilli fjölgun gesta á þessu ári. Þetta styður einnig við að vinna okkur við að fjölga gistináttum á Vesturlandi er að skila árangri,“ segir Kristján Guðmundsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Vesturlands í samtali við Skessuhorn.
Tekið af heimasíðu Skessuhorns.