Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

VESTNORDEN 2024

Ferðakaupstefnan Vestnorden var haldin í Þórshöfn í Færeyjum dagana 23.-26. september. Metaðsókn var og aldrei hafa fleiri þátttakendur mætt á kaupstefnuna í Færeyjum en þar komu saman yfir 400 manns frá 26 löndum. Fulltrúar Markaðsstofu Vesturlands kynntu landshlutann ásamt fjórum ferðaþjónustufyrirtækjum af svæðinu, þ.e. Láki Tours, Hótel Borgarnes, Hótel Varmaland og Hótel Hamar.

Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála, standa að Vestnorden. Löndin þrjú skipta með sér umsjón með ferðakaupstefnunni en hún er haldin annað hvert ár á Íslandi. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili að kaupstefnunni. 

Vestnorden er haldin árlega í einu af þremur aðildarlöndum NATA, þ.e. Íslandi, Færeyjum og Grænlandi (annað hvert ár á Íslandi). Á kaupstefnunni fá ferðaþjónustufyrirtæki frá löndunum þremur tækifæri til að kynna þjónustu sína fyrir ferðaskrifstofum allsstaðar að úr heiminum. Undanfarin ár hefur áhugi ferðafólks, víða um heim, á að heimsækja löndin þrjú vaxið mikið og hefur uppbygging og fjölbreytni í ferðaþjónustunni vaxið gríðarlega til að koma til móts við vaxandi eftirspurn. Vestnorden er kjörinn vettvangur til að koma saman, kynnast og stofna til nýrra viðskiptasambanda. Á Vestnorden er áhersla lögð á ábyrga ferðahegðun og sjálfbærni og fellur það vel að áhersluatriðum íslenskrar ferðaþjónustu. 

Í ár hélt Vestnorden upp á 40 ára afmæli og var því fagnað í Þórshöfn við einstaka gestrisni Færeyinga 🇫🇴🇮🇸🇬🇱

Vestnorden verður haldin á Akureyri haustið 2025

Vestnorden 2024 í Færeyjum - Myndasafn