Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vel heppnað Mannamót 2024

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna voru haldin í Kórnum í Kópavogi 18. janúar. Sýningin var vel sótt bæði af sýnendum, sem fylltu 250 sýningapláss, og gestum, en hátt í þúsund manns sóttu sýninguna í ár og kynntu sér fjölbreytt úrval ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Mannamót er ferðakaupstefna sem haldin er af Markaðsstofum landshlutanna ár hvert á höfuðborgarsvæðinu, í samvinnu við flugfélagið Erni og Isavia. Markmið ferðakaupstefnunnar og tilgangur er að skapa vettvang þar sem ferðaþjónustufyrirtæki af landsbyggðinni fá tækifæri til að kynna sína þjónustu og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Ísland hefur mikið upp á að bjóða og Mannamót hjálpar til við að mynda tengsl innan ferðaþjónustunnar og á sama tíma gefst gestum kostur á að kynna sér það sem landshlutarnir eru að bjóða upp á.

Þetta er í tíunda skipti sem ferðakaupstefnan er sett upp en hún hefur verið haldin ár hvert síðan 2014, að undanskildu árinu 2021 þar sem heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn. Mannamót fagna því 10 ára afmæli í ár. Þetta er sívaxandi viðburður sem hefur þróast og stækkað með árunum en metfjöldi gesta sótti sýninguna í ár eða u.þ.b. þúsund manns. Það voru því hátt í 1.500 manns sem komu saman í Kórnum í ár og óhætt að segja að stemningin hafi verið lífleg og skemmtileg.

Það var frábær þátttaka frá Vesturlandi, þar sem 40 fyrirtæki mættu og mynduðu saman gott yfirlit yfir fjölbreytt úrval ferðaþjónustufyrirtækja sem landshlutinn býr yfir. 

 .  

 

Hér má nálgast fleiri myndir frá Mannamótum