Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Styttist í opnun hjá Ice Cave

Fimm hundruð metra ísgöng í Langjökli verða opnuð ferðamönnum 1. júní. Að sögn framkvæmdastjóra IceCave Iceland er mikill áhugi fyrir hellinum. Nú hafi hátt í fjögur þúsund bókað ferð á jökulinn.
Ice Cave Iceland
Ice Cave Iceland

„Nú erum við aðallega að fara í frágang, en öll aðalatriði eru komin og við opnum 1. júní,“ segir Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri IceCave Iceland.

Fyrirtækið hefur undanfarið unnið að greftri á íshelli í Langjökli. Þar munu ferðamenn eiga færi á að skoða jökulinn að innan.

Í fyrradag tókst að ljúka við göngin og Sigurður segir að aukaatriðin séu það eina sem eftir standi.

Aðstæður á fjallinu hafa verið erfiðar í ár og veðrið hefur torveldað framkvæmdirnar.

„Við þurftum náttúrlega að glíma við versta veturinn í mjög langan tíma. Það hefur gengið svolítið brösuglega að halda áætlunum, en nú er ljóst að þetta mun hafast,“ segir Sigurður.

Nú hefur verið opnað fyrir skráningu í skoðunarferðir og áhuginn lætur ekki á sér standa.

„Þetta hefur vakið gríðarlega athygli erlendis. Fjölmiðlar frá Þýskalandi og Bretlandi hafa komið hingað og fjallað ítarlega um íshellinn. Svo hafa milli þrjú og fjögur þúsund manns skráð sig í ferðirnar, svo það er mikill meðbyr.“

Þá segir Sigurður að ferðirnar njóti mikilla vinsælda meðal hópa.

Öllu er tjaldað til við að gera upplifunina sem stórfenglegasta og spilar lýsingin stærsta hlutverkið.

Heildarlengd ganganna er fimm hundruð metrar og gert er ráð fyrir að ferðin inn í jökulinn taki klukkustund með leiðsögumanni.

„Aðalálagstíminn verður sennilega frá júní og fram í september. Ætli þetta verði ekki rólegra eftir því sem líður á veturinn,“ segir Sigurður.

Heimild Vísir.is