Markaðsstofa Vesturlands tekur þátt í RETURN-verkefninu
Markaðsstofa Vesturlands er þátttakandi í verkefninu RETURN – Regenerative Economic Transfers for Universal Resilience in the North, sem hlaut styrk frá Interreg-áætluninni Northern Periphery and Arctic (NPA). Verkefnið er leitt af Arctic Centre við Háskólann í Lapplandi og er samstarfsverkefni aðila frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Svíþjóð, Noregi, Írlandi, Skotlandi og Finnlandi.
24.02.2025
Markaðsstofa Vesturlands tekur þátt í RETURN-verkefninu
Markaðsstofa Vesturlands er þátttakandi í verkefninu RETURN – Regenerative Economic Transfers for Universal Resilience in the North, sem hlaut styrk frá Interreg-áætluninni Northern Periphery and Arctic (NPA). Verkefnið er leitt af Arctic Centre við Háskólann í Lapplandi og er samstarfsverkefni aðila frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Svíþjóð, Noregi, Írlandi, Skotlandi og Finnlandi. Verkefnið hefst 1. apríl 2025 og stendur í þrjú ár.
RETURN miðar að því að þróa og innleiða lausnir sem tryggja að tekjur af gjaldtöku og skattlagningu vegna ferðaþjónustu nýtist á viðkomandi ferðasvæðum. Markmiðið er að aðstoða sveitarfélög og yfirvöld við að innleiða sanngjörn og gagnsæ tekjuöflunarkerfi sem styðja við uppbyggingu innviða, náttúruvernd og bætta þjónustu. Verkefnið mun skoða mismunandi leiðir, svo sem ferðamannaskatta, náttúruverndargjöld og frjáls framlög, sem geta stuðlað að því að efnahagslegur ávinningur af komu ferðafólks styðji við nauðsynlega uppbyggingu og mótvægisaðgerðir til að minnka álag og auka ábata af ferðaþjónustunni. Með þessu er unnið að réttlátari dreifingu tekna með tilliti til álags á áfangastaði, með sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
Íslenskir þátttakendur í verkefninu eru Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF), Samband íslenskra sveitarfélaga og Markaðsstofa Vesturlands.
RETURN verkefnið býður upp á einstakt tækifæri til að þróa nýjar, skilvirkar og sanngjarnar leiðir í gjaldtöku sem styðja við uppbyggingu og framþróun ferðaþjónustu, þar sem hagur allra er hafður að leiðarljósi—samfélags, fyrirtækja, umhverfis og gesta.