Markaðsstofa Vesturlands bregst við ástandinu
Markaðsstofa Vesturlands bregst við ástandinu
Engum dylst að ferðaþjónustan stendur höllum fæti um þessar mundir vegna áhrifa Covid-19 á heimsbyggðina. Markaðsstofa Vesturlands hefur fylgst náið með gangi mála. Gerð var könnun meðal ferðaþjónustufyrirtækja í landshlutanum og í tölvupósti sem nýverið var sendur hagaðilum ferðaþjónustunnar á Vesturlandi, segir Margrét Björk Björnsdóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands, að margt ferðaþjónustufólk sé uggandi yfir stöðunni. Þeir sem hafi fyrstir svarað könnuninni hafi reynt að bera sig vel, en síðan hafi hallað mjög hratt undan fæti. Staða ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni sé mjög erfið um þessar mundir, enda búi atvinnugreinin þar enn við miklar árstíðasveiflur. Ferðaþjónustan hafi gengið í gegnum erfiða tíma síðastliðið ár og eigi því ekki til varasjóð til að mæta þessum skelli sem nú dynur yfir.
Markaðsstofa Vesturlands hefur því unnið að allmörgum aðgerðum til að reyna að styðja við ferðaþjónustuna í landshlutanum. Árgjald vegna aðildar að markaðsstofunni hefur þannig verið lækkað úr 50 þús. krónum í 15 þús. krónur fyrir árið 2020. „Mikilvægt er að ferðaþjónustufyrirtæki séu í formlegu samstarfi við Markaðsstofu Vesturlands til að við getum sýnt samstöðu atvinnugreinarinnar og fáum þannig meira vægi í samtali okkar við stjórnvöld,“ skrifar Maggý í samtali við Skessuhorn. „Einnig er mikilvægt að efla enn frekar samstarf í vöruþróun og markaðsmálum, en miðað er við að þau fyrirtæki sem taka þátt í markaðsvinnu, vöruþróunar- og framfaraverkefnum með okkur, séu formlegir samstarfsaðilar Markaðsstofu Vesturlands,“ bætir hún við.
Markaðssetning framundan
Tíu milljónum hefur verið úthlutað úr Sóknaráætlun Vesturlands í áhersluverkefnið „Efling ferðaþjónustunnar á Vesturlandi“ fyrir árið 2020. Einnig hefur verið ákveðið að nota peninga frá sóknaráætlun til að gera markaðsefni sem mun nýtast Vesturlandi öllu, bæði ljósmyndir og stuttar kynningarmyndir. Samið hefur verið við framleiðslustofuna Tjarnargötuna um að vinna heildstætt markaðsefni sem verður notað í vinnu markaðsstofunnar og samstarfsaðilar geta notað til kynningar á Vesturlandi. „Myndatökur hófust í síðustu viku,“ segir Maggý, en einnig verður ráðist í markaðsátak í samstarfi við Ferðamálastofu og markaðsstofur annarra landshluta til að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands. FMS hefur ráðið auglýsingastofu til að leiða það verkefni. „Verið er að móta þessa vinnu og vonandi fáum við meira efni um þetta í þessari viku svo við getum upplýst samstarfsaðila okkar betur um verkefnið,“ segir hún. „En í tilefni af þessari vinnu hvetjum við ferðaþjónustuaðila á Vesturlandi til að uppfæra heimasíður og kynningarefni sitt á íslensku. Einnig bendum við ferðaþjónustuaðilum á að bjóða upp á tilboð sem byggja á því að viðskiptavinurinn framvísi ferðaávísun stjórnvalda sem stendur til að senda öllum Íslendingum yfir 18 ára til að nýta í ferðalög innanlands 2020,“ segir Maggý. Þá er Íslandsstofa að undirbúa markaðsátak sem einnig verður unnið í samstarfi við markaðsstofur landshlutanna og fleiri hagaðila, þar sem áherslan er á ímynd Íslands og erlendan markað. Sú vinna hefur ekki verið mótuð en unnið er að útboði, þar sem verkefnið er afar stórt í sniðum.
Unnið að ferðaleiðum
Þá er áfram unnið að þróun áfangastaðaverkefna Vesturlands. Hafin er vinna við gerð ferðaleiða á öllum svæðum. Vinna við ferðaleið um Akranes og Hvalfjörð er að fara af stað, sem og ferðaleið um Borgarfjörð. Leið um Snæfellsnes er í vinnslu hjá Svæðisgarðinum og vinna við Vestfjarðaleiðina, um Vestfirði og Dali, er í fullum gangi í samvinnu við Vestfjarðastofu. „Mikilvægt er að fá sem flesta og fjölbreyttasta ferðaþjónustu með í þessi samstarfsverkefni til að hægt sé að kynna þá þjónustu á þessum ferðaleiðum,“ segir Maggý og bætir því við að sömuleiðis þurfi að uppfæra og endurnýja aðgerðaáætlun fyrir Áfangastaðaáætlun Vesturlands á þessu ári og gera nýja aðgerðaáætlun sem gildir til næstu þriggja ára. „Í drögum að breytingum á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er kveðið á um að þau verkefni sem sótt er um uppbyggingarstyrki fyrir til ríkisins þurfi að vera skráð í aðgerðaáætlun áfangastaðaáætlunar viðkomandi landshluta. Því þurfum við að sameinast um vinnu við nýja aðgerðaáætlun,“ segir hún. „Við þurfum að hafa hraðar hendur um það, því stefnt er að því að opna fyrir umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í september og úthluta fyrir áramót 2020,“ segir Maggý.
Þá má geta þess að rekstri Upplýsingamiðstöðvar Vesturlands í Hyrnutorgi í Borgarnesi hefur verið hætt, eins og greint er frá í annarri frétt í Skessuhorni vikunnar. Starfsemi Markaðsstofunnar flytur því úr Hyrnutorgi að Bjarnabraut 8 í Borgarnesi, þar sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi eru til húsa.