Haustfundur MAS
Starfsmenn Markaðsstofa landshlutanna (MAS) hittust á tveggja daga vinnufundi í Reykjavík í vikunni, þar sem unnið var að mörkun fyrir samstarf markaðsstofanna. Í dag starfa um tuttugu manns hjá MAS, sem vinna að eflingu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Á undanförnum árum hefur samstarfið aukist sem hefur meðal annars skilað sér í fjölmennasta viðburðinum í íslenskri ferðaþjónustu, Mannamóti Markaðsstofa landshlutanna.
Rætt var um staðsetningu MAS í stoðkerfi ferðaþjónustu og hlutverk þess gagnvart hinum ýmsu aðilum sem tengjast starfinu bæði innan hvers landshluta og yfir allt landið. Allar markaðsstofurnar vinna að því að kynna sína ferðaþjónustu í sínum landshluta, náttúruna sem þar er og annað sem er áhugavert að skoða og upplifa.
Starfið er því oft mjög svipað hjá hverri markaðsstofu en um leið er unnið misjafnlega að því markmiði að efla ferðaþjónustu, og því mjög áhugavert fyrir starfsmenn að sjá og heyra hvernig vinnan fer fram í öðrum landshlutum. Þar má helst nefna markaðssetningu, vöruþróun með samstarfsfyrirtækjum, blaðamannaferðir og ferðir með starfsmönnum innlendra og erlendra ferðaskrifstofa.
Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er sem fyrr segir fjölmennasti viðburðurinn í íslenskri ferðaþjónustu og sennilega sá flötur á samstarfi MAS sem er hvað mest áberandi. Næsta Mannamót verður haldið í Kórnum í Kópavogi, fimmtudaginn 19. janúar 2023.