Er Vesturland aðlaðandi fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu?
Samkvæmt þeim svörum sem bárust er skýrt að húsnæðismál skipta miklu máli fyrir rekstur ferðaþjónustu á Vesturlandi – og víða er skortur á viðunandi lausnum. Þetta á sérstaklega við á Snæfellsnesi en einnig á Borgarfjarðarsvæðinu. Áberandi er meiri áskorun í húsnæðismálum fyrir fyrirtæki í dreifbýli, þar sem þau þurfa oft að útvega sínu starfsfólki húsnæði. Í þéttbýli eru úrræðin fjölbreyttari, en þó koma fram tengsl milli húsnæðismála og möguleika fyrirtækja til að manna stöður til að tryggja þjónustu og gæði, og geta unnið að vexti og þróun fyrirtækjanna.
Í ljósi þessa verður haldið opið málþing á Hótel Hamri fimmtudaginn 3. apríl kl. 10:00–13:00 undir yfirskriftinni:
„Er Vesturland aðlaðandi fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu?“
Þar verða flutt erindi, sagðar reynslusögur farið yfir niðurstöður þessarar könnunar. Einnig verða pallborðsumræður þar sem fulltrúar sveitarfélaga taka þátt í samtali við fundargesti um áskoranir, tækifæri og sameiginlega ábyrgð hvað þessi mál varðar.
Ferðaþjónustuaðilar, sveitarstjórnarfólk og allir sem hafa áhuga á framtíð ferðaþjónustunnar og byggðamálum á Vesturlandi eru hvattir til að mæta og taka virkan þátt í samtalinu.