Bjartsýni ríkir hjá ferðaþjónustufólki á Vesturlandi
Mannamót markaðsstofa landshlutanna fóru fram í flugskýli Ernis við Reykjavíkurflugvöll í gær. Mannamót er árlegur viðburður og er ætlað að vera vettvangur ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni til að kynna sig og sína þjónustu fyrir ferðaskrifstofum og fleiri ferðaþjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu. Á Mannamóti hittist því fólk alls staðar af landinu, kynnist hvert öðru og myndar tengsl.
Rúmlega 30 fyrirtæki af Vesturlandi tóku þátt í mannamóti að þessu sinni og var heill gangur sýningarinnar undirlagður fulltrúum fyrirtækja úr héraðinu, sem kynntu sína vöru og komu á framfæri við annað fólk í þessum sama geira. „Mér sýnist þetta samstarfsverkefni markaðsstofanna á landsbyggðinni hafi heppnast mjög vel í ár. Mætingin var mjög góð og fyrirtækin eru ánægð,“ sagði Kristján Guðmundsson, forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands í samtali við Skessuhorn undir lok viðburðarins. „Það er mikil bjartsýni í ferðaþjónustufólki á Vesturlandi, enda ekki annað hægt þegar vöxturinn er svona góður,“ bætti hann við, glaður í bragði.
Frétt tekin af vef Skessuhorns.