Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Á döfinni hjá Á&M

Áfangastaða- og Markaðsstofa Vesturlands (Á&M) stefnir á að senda samstarfsaðilum og öðrum hagaðilum fréttabréf þar sem fram koma helstu fréttir og upplýsingar um verkefni sem unnið er að og eru fram undan. Í þessu fréttabréfi verður því bæði “horft um öxl - og fram á við”.
Mynd eftir Kristínu Jóns
Mynd eftir Kristínu Jóns

Hvað er á döfinni? - fréttabréf Á&M

Á döfinni – undirsíða á vesturland.is

Á vesturland.is hefur verið búin til ný undirsíða sem ber heitið „Á döfinni“. Undir þessari síðu munum við birta upplýsingar um þau verkefni sem eru í gangi hjá okkur hverju sinni sem samstarfsaðilum stendur til boða að taka þátt í. Inni á síðunni verður því hægt að fylgjast með hvaða verkefni eru í gangi og þróun þeirra verkefna sem við tökum okkur fyrir hendur í samstarfi við samstarfsaðila og aðra hagaðila ferðaþjónustu á Vesturlandi.

Sjá hér: Á döfinni.

Ferðamálaráð Vesturlands

Ferðamálaráð Vesturlands var stofnað nú á dögunum þar sem valdir voru fulltrúar til að starfa sem ráðgefandi stýrihópur fyrir starfsemi Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands. Þannig mun bæði rödd sveitarfélaganna og starfandi ferðaþjónustuaðila á Vesturlandi fá virka aðkomu og hlutverk við stefnumótun og áherslur í starfsemi Á&M. Skipað var í ráðið til eins árs til að vinna að þróun þessarar starfsemi, en stefnt er að því til framtíðar að samstarfsaðilar kjósi fulltrúa í ráðið. Samstarfsaðilar Markaðsstofu Vesturlands fá þá rétt til að kjósa 6 fulltrúa auk þess sem sveitarfélögin tilnefna 4 fulltrúa úr röðum áfangastaðafulltrúa frá hverju starfssvæði og formaður ráðsins er svo fulltrúi eigenda Á&M. Fyrsti fundur nýs ferðamálaráðs var haldinn 22.02.2022 og hlökkum við til að starfa með því til framtíðar. Frekari upplýsingar um FMRV má sjá á heimasíðu Á&M.

Tækifæri í móttöku skemmtiferðaskipa og skipafarþega á Vesturlandi

Áfangastaða- og Markaðsstofa Vesturlands ásamt Akraneskaupstað og Faxaflóahöfnum taka nú þátt í samstarfsverkefni um gæði í móttöku á skemmtiferðaskipum. Þetta er NORA verkefni sem kemur í gegnum Ferðamálastofu og er samstarfsverkefni við AECO þar sem unnið er með nokkrum höfnum á Íslandi, Noregi, Færeyjum og Grænlandi.

Verkefnið gengur út á að heimamenn, þar sem skemmtiferðaskip koma í höfn, leggi línurnar og móti stefnu um hvernig þeir vilja taka á móti farþegum skemmtiferðaskipa sem heimsækja svæðið, þannig að gestirnir njóti heimsóknarinnar og samfélagið njóti ávinnings af gestamóttökunni. Verkefnið var kynnt í beinu streymi á Facebook en þá kynningu má sjá hér: Tækifæri í móttöku skemmtiferðaskipa og skipafarþega á Vesturlandi.

Vinnustofa var haldin á Akranesi þann 1. mars þar sem þeir aðilar sem standa að verkefninu komu saman ásamt áhugasömum hagaðilum og heimafólki til að setja saman viðmiðunarreglur eða leiðbeiningar fyrir gesti skemmtiferðaskipa á Akranesi og gestgjafa þeirra. Lokaafurð þessa verkefnis verður leiðavísir sem bæði farþegar skemmtiferðaskipanna og gestgjafar í landi geta haft til hliðsjónar þegar skemmtiferðaskip koma í höfn á Akranesi.

Okkur hjá Á&M þykir þetta verkefni vera kjörið tækifæri til að hóa saman í „sprettverkefni“ um mótun ferðapakka sem henta vel fyrir skipafarþega sem koma í land á Akranesi. Samstarfsaðilum markaðsstofunnar mun standa til boða að taka þátt í þessu sprettverkefni. Okkur langar til að setja saman nokkra upplifunar-, þjónustu- og ferðapakka sem geta verið með viðkomustaði á Akranesi, Hvalfirði, Kjós, Borgarfirði og Borgarnesi. Því fleiri sem taka þátt í verkefninu þeim mun fjölbreyttari ferðapakka getum við sett saman. Hér má skrá sig til leiks í verkefnið: Þróun ferðapakka fyrir skipafarþega sem koma í höfn á Akranesi.

Vinnufundur Markaðsstofa landshlutanna 24.-25. febrúar

Dagana 24.-25. febrúar var haldinn sameiginlegur vinnufundur og samhristingur hjá Markaðsstofum landshlutanna þar sem starfsfólkið allra Markaðsstofanna kom saman til að bera saman bækur og fara yfir sameiginleg verkefni. Meðal efnis voru kynningar frá ferðamálateymi Íslandsstofu og Ferðamálastofu á helstu samstarfsverkefnum þeirra og Markaðsstofanna. Farið var yfir sameiginleg verkefni, s.s. upplifdu.is, landshlutavefina, Mannamót Markaðsstofanna, ferðasýningar o.fl. Nýir starfsmenn voru kynntir til leiks og boðnir velkomnir. Lilja Alfreðsdóttir, nýskipaður Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra kynnti sig og sínar áherslur í ferðamálum fyrir hópnum.

Mannamót

Eins og flest ykkar vita, þá þurftum við að fresta Mannamóti Markaðsstofa landshlutanna sem halda átti 20. janúar síðastliðinn. Ný dagsetning hefur verið ákveðin þann 24. mars næstkomandi og hlökkum við til að taka á móti bæði sýnendum og gestum í Kórnum í Kópavogi. Samstarfsaðilar sem voru þegar hafa skráð sig halda sínum plássum. Hér má lesa allt um Mannamót Markaðsstofanna. Við hvetjum alla sem ekki sjá sér fært að taka þátt sem sýnendur, að skrá sig til leiks sem gesti, það er alltaf gott að láta sjá sig og sjá aðra í greininni en þetta er langstærsti viðburðurinn af þessu tagi á Íslandi þar sem ferðaþjónustuaðilar víðsvegar af landsbyggðinni koma saman og kynna sig og sína starfsemi.

Skrá gest