1,5 milljarði veitt til innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu í dag grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2020. Samtals er nú úthlutað rúmum 1,5 milljarði króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem gerir kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp innviði á ferðamannastöðum.
„Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig það kerfi um náttúruvernd og uppbyggingu innviða sem var búið til með stofnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða heldur áfram að styrkjast og skila árangri. Það er lykilatriði fyrir þá samhæfðu ferðaþjónustu byggða á grunni gæða sem framtíðarsýn okkar, um að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun árið 2030, byggir á,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Úthlutuninni og verkefninu sjálfu hafa verið gerð góð skil á síðu Stjórnarráðsins.
Öll uppbygging innviða er mikill ábati fyrir ferðaþjónustuna í landinu og því gleðjumst við mjög við þessar fréttir. Markaðsstofa Vesturlands vill einnig koma á framfæri hamingjuóskum til þeirra sem hlotið hafa styrk til uppbyggingar.