Upplýsingar um verð
Olivier Manoury bandoneonleikari og Kjartan Valdemarson píanóleikari hafa spilað saman síðan á tíunda áratugnum. Þeir hafa komið víða fram og flytja heimstónlist allt frá djassi til latínutónlistar með áhrifum frá franskri og íslenskri tónlist þar sem spuni leikur stórt hlutverk.
Olivier Manoury ólst að mestu upp í París. Hann var alla tíð listhneigður og stundaði listnám lengi. Olivier er vel þekktur sem bandóneonleikari í Frakklandi og víðar um heim. Hann hefur samið tónlist fyrir kvikmyndir, leikhús og danssýningar, spilað inn á fjölda geisladiska, auk þess að leika á tónleikum og tónlistarhátíðum í Evrópu og Suður-Ameríku. Olivier leikur bæði tangó og djass en meðal þeirra hljómsveita sem hann hefur stofnað eru Tangoneon, Tempo Di Tango og Le Grand Tango. Síðastnefnda hljómsveitin er Íslendingum að góðu kunn, en hún er skipuð þekktum hljóðfæraleikurum úr íslensku tónlistarlífi.
Kjartan Valdemarsson er íslenskur djasspíanóleikari og tónskáld. Hann nam píanóleik við Tónlistarskóla Mosfellsbæjar áður en hann hélt til Bandaríkjanna, þar sem hann stundaði nám við Berklee College of Music. Hann er kennari við Tónlistarskóla FIH og starfar sem píanóleikari við Listdansskóla Íslands og Íslenska dansflokkinn.
Kjartan hefur lengi og víða komið fram. Hann hefur starfað í leikhúsum og unnið mikið í hljóðverum, bæði sem hljómborðsleikari og upptökustjóri. Kjartan er einnig eftirsóttur útsetjari, en hann hefur m.a. útsett fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og Stórsveit Reykjavíkur. Þá lék hann um tíma með einni af fremstu stórsveitum Svíþjóðar; Norbotten Big Band.