Hallgrímskirkja í Saurbæ
Hallgrímskirkja í Saurbæ í Hvalfirði sem nú stendur var reist árið 1957 og teiknuð af Sigurði Guðmundssyni. Steindir gluggar hennar, eftir Gerði Helgadóttur, eru einstakt listaverk. Fyrir kórgafli, er freskumynd í stað altaristöflu eftir finnska listamanninn Lennart Segerstråle.
Staðurinn er ekki síst þekktur vegna búsetu sálmaskáldsins séra Hallgríms Péturssonar en Saurbær hefur verið prestssetur og kirkjustaður um langa hríð. Hallgrímskirkja í Reykjavík er einnig nefnd eftir honum.
Séra Hallgrímur var afkastamikið skáld en þekktasta verk hans er án efa Passíusálmarnir sem rekja píslarsögu Jesú Krists. Sálmurinn "Allt eins og blómstrið eina" er fluttur við útför flestra Íslendinga en séra Hallgrímur orti hann eftir lát Steinunnar dóttir sinnar.