Akrafjall
Akrafjall er formfagurt fjall, rétt við bæjarmörk Akraness, kennileiti sem breytir um svip eftir sjónarhorninu. Það er klofið í tvo hluta inn að miðju af Berjadal og eftir honum rennur Berjadalsá. Fjallið er 643 m.y.s. og er mest gert úr blágrýti en stuðlaberg finnst þar einnig víða.
Helstu hnjúkar fjallsins eru tveir, Geirmundartindur, 643 m og sunnan við hann, Háihnjúkur, 555m. Gestabók er á Háahnjúki.
Vinsælar gönguleiðir eru á fjallið og sagt að gangan henti fjölskyldufólki vel. Gönguleið á fjallið er ekki stikuð, ferðafólk er því alfarið á eigin ábyrgð ef það leggur til uppgöngu.