Glymur
ATHUGIÐ - Gönguleiðin getur verið mjög hættuleg yfirferðar yfir vetrarmánuðina og ekki ráðlegt að ganga hana nema með viðeigandi búnað og mikla reynslu í farteskinu!
Fossinn Glymur er í Botnsdal, í Hvalfjarðarsveit. Hann kemur úr Botnsá og er hæsti aðgengilegi foss landsins en fallhæð hans er 198 metrar. Rennur áin síðan í hrikalegu gljúfri niður undir dalbotn og út í Botnsvog.
Gönguferð að fossinum Glym getur tekið á bilinu 3-4 klukkustundir. Bílastæði er inni í dalnum og liggur greinilegur stígur upp að fossinum. Hann sést betur frá suðurbrún gilsins og þá leið fara margir. Gönguleiðin hefur verið merkt með gulmáluðum steinum með vissu millibili.
Ganga upp að fossinum er fyrir fólk sem er í þokkalegu formi, því bæði er brött brekka á gönguleiðinni ásamt lausum skriðum.
Á vorin og fram eftir sumri er í gilinu er mikið varp fýls.
Áin sjálf kemur úr Hvalvatni einu dýpsta vatni landsins sem liggur ofan við fjallið Hvalfell.