Löngufjörur Á Snæfellsnesi
Löngufjörur á sunnanverðu Snæfellsnesi eru ljósar skeljasandsfjörur og leirur sem eru vinsælar til útreiða.
Fjörurnar eru heillandi fyrir hestamenn að ferðast um því þar er hægt að taka klárana til kostanna og þeysa um. Mjög er þó varasamt að fara þar um nema með leiðsögn og er eindregið mælt með að fólk fari ekki þar um gangandi eða á hestum nema með reyndum leiðsögumanni sem þekkir svæðið vel. Mikilvægt er að fara varlega við sjávarhamra sem eru á svæðinu og einnig að kynna sér flóð og fjörur. Fjaran er varhugaverð því öldurnar eru mjög óútreiknanlegar og einnig geta verið sandbleytur (kviksandur) í fjörunni.
Löngufjörur eru oftast taldar ná frá Hítarnesi og vestur að Stakkhamri.