Eiríksstaðir í Dölum
Á Eiríksstöðum í Dölum eru fornar rústir sem líklega eru bær Eiríks rauða Þorvaldssonar og konu hans Þjóðhildar Jörundardóttur. Rústir bæjarins eru friðlýstar fornminjar.
Á grunni rústanna á Eiríksstöðum var reistur tilgátubær sem vígður var árið 2000 í tilefni þess að 1000 ár voru liðinn frá landafundum Leifs heppna í Ameríku. Við bygginguna var lögð áhersla á að styðjast við rannsóknir á fornu verklagi eins og það hafði verið viðhaft á upprunalega bænum.
Að Eiríksstöðum er lifandi safnastarfsemi. Starfsfólk er klætt að fornum sið og fræðir gestkomandi um lífið fyrir þúsund árum, gamla verkmenningu og búskaparhætti. Jafnframt er hægt að skoða handverk, vopn og ýmsa muni frá sama tíma. Þá eru söguskilti á svæðinu og stytta af Leifi Eiríkssyni eftir Nínu Sæmundsson.
Eiríkur rauði var gerður útlægur af Íslandi fyrir víga sakir og leitaði þá landa í vestri. Hið nýfundna land nefndi hann Grænland og flutti þangað með fjölskyldu sína árið 985 eða 986 og fjöldi fólks fylgdi honum.
Leifur fann og kannaði Vínland árið 1000, fyrstur Evrópubúa, nær 500 árum á undan Kólumbusi. Leifur heppni er því meðal merkustu landkönnuða sögunnar.