Breiðin á Akranesi
Breiðin er syðsti hluti Akraness og þar er fagurt útsýni yfir allan Faxaflóann, sérstaklega ef farið er alla leið upp í Akranesvita, en þaðan má sjá allt frá Reykjanesskaga að Snæfellsjökli í góðu skyggni.
Á Breiðinni er að finna einn elsta steinsteypta vita landsins frá árinu 1918 ásamt yngri vita, Akranesvita, sem reistur var á árunum 1943-44. Á Breið eru líka gamlir skreiðarhjallar og greina má steinlagt stakkstæði þar sem saltfiskur var breiddur út á góðviðrisdögum áður fyrr.
Fuglalíf er mikið á þessu svæði og mikilfenglegar, brimbarðar klapparfjörur. Norðurljósadýrð getur orðið þar einstök og sólarlagið ægifagurt. Svæðið býður því upp á einstakt útsýni og litadýrð allan ársins hring.