Brákarey
Brákarey í Borgarnesi eru í raun tvær litlar klettaeyjar, í daglegu tali nefndar stóra og litla Brákarey. Þær liggja fyrir framan nesið, neðst í bænum.
Eyjarnar draga nafn sitt af Þorgerði brák, ambátt Skallagríms, sem reyndi að bjarga lífi sínu með því að fleygja sér til sunds í sjóinn. Kastaði Skallagrímur steini á eftir henni og komu hvorugt upp síðan, eins og segir í Egilssögu.
Brákarsund, heitir því einnig sundið milli lands og eyjar, og þar innan við er Brákarpollur sem lengi var skipalægi meðan skip voru almennt minni en síðar gerðist.
Stóra Brákarey er tengd við land með brú sem smíðuð var árið 1929. Hún var breiðasta brú landsins á sínum tíma. Í eyjunni var lengi mikið athafnalíf sem sjást merki um.
Í litlu Brákarey er mikið fuglalíf og þar hefur æðavarp verið stundað um tíma. Eyjan er friðuð yfir varptímann.
Við brúarsporðinn, landmegin, má sjá bryggju gerða úr grjóti þar sem bátar fyrri tíðar voru festir.
Af öllu svæðinu er fallegt útsýni.