Kynningar- og vinnufundur 28.03.2023
Kynningar- og vinnufundur 28.03.2023
Fyrsti stóri kynningar- og vinnufundurinn í „skipaverkefninu“ á Snæfellsnesi var haldin í samkomuhúsinu í Grundarfirði þriðjudaginn 28.03. kl. 16:45- 19:45.
Fundarboð var sent út á hagaðilalista allra þjónustusvæða á Snæfellsnesi sem hafði verið unnin með samstarfsaðilum verkefnisins eins og kynnt er í verkefniskynningunni. Þátttakendur sem mættu á fundinn voru 45 auk þess sem það komu góðir gestir frá AECO sem héldu kynningu á fundinum og áttu samtal við heimafólk. Það voru Gyða Guðmundsdóttir, sérfræðingur í samfélagsþátttöku hjá AECO og Karin Strand stjórnarformaður AECO og þróunarstjóri hjá Hurtigruten Expeditions. Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI aðstoðaði við undirbúning og framkvæmd á fundinum.
Fundurinn byrjaði á að verkefnastjóri fór yfir kynningu á verkefninu, þá voru kynningar frá gestunum um eðli skipaferðaþjónustu og áherslur skipafélaga sem starfa undir AECO.
Síðan var farið yfir mikilvægi góðrar heimavinnu, samtals og samvinnu í ferðaþjónustu og verkefni sem lágu fyrir að vinna á fundinum.
Í fundarhléi var boðið upp á dýrindis pizzaveislu frá Kaffi 59 svo fundargestir voru endurnærðir, sælir og glaðir.
Seinni hluta fundarins var unnið í svæðisskiptum hópum, þar sem hver hópur vann SVÓT-greiningu fyrir sitt svæði og gekk það mjög vel. En þessi SVÓT-greining er ein af undirstöðugreiningum sem nýttar eru í þessu verkefni til að meta stöðu svæðisins, tækifæri og möguleika til að efla og bæta stýringu og móttöku ferðamanna á öllum þjónustusvæðum á Snæfellsnesi.
En í þessu verkefni er lagt upp með að vinna leiðbeiningar fyrir skipafarþega (ferðafólk) fyrir hvert þjónustusvæði á Snæfellsnesi, eins og kynnt er í verkefniskynningunni.
Kynningarnar sem fluttar voru á fundinum voru teknar upp og því er hægt að hlusta og sjá þær með því að smella á þau hér fyrir neðan. Athugið að hægt er að stækka myndböndin með því að ýta á kassann í neðra horninu hægra megin (full screen).