Á fallegum stað í eldri bæjarhluta Borgarness liggur friðsæl og falleg vík sem heitir Englendingavík. Þar ríkir ró og friður sem eingöngu er rofinn af fuglasöng og sjávarnið. Í gömlu kaupfélagshúsunum í víkinni var stunduð verslun til fjölda ára en nú hýsa þau veitingastaðinn og gistiaðstöðuna Englendingavík ásamt Leikfangasafni Soffíu .
Veitingahúsið Englendingavík
Í veitingahúsinu Englendingavík er lagt upp með afslappað og notalegt andrúmsloft í anda gömlu húsanna í víkinni. Boðinn er fjölbreyttur matseðill með áherslu á fisk og lamb. Í sumar er opið frá 13:00-21:00 alla daga.
Sjálfsagt er að taka á móti hópum alla daga.
Úr veitingahúsinu er afar fallegt útsýni út á sjóinn og nærliggjandi eyjar og sker sem iða af fuglalífi og gaman er að fylgjast með flóði og fjöru úr veitingasalnum. Einnig er pallur fyrir sunnan húsið, þar sem lognið dvelur þegar norðan- og norðaustan áttir ríkja. Þar er notalegt að sitja í sólinni og njóta matar og drykkjar í góðum félagsskap.
Gistihúsið Sjávarborg
Við víkina stendur einnig heimagistingin Sjávarborg, í bárujárnsklæddu húsi sem byggt var 1890 og stendur alveg við sjávarsíðuna. Sjávarborg býður uppá heimilislega gistingu, þar sem hægt er að velja á milli fjögurra manna fjölskylduherbergis og fjögurra tveggja manna herbergja, allt í uppábúnum rúmum með sameiginlegu baðherbergi.
Andrúmsloftið er afslappað á Sjávarborg, aðgangur að eldhúsi og setustofu og auðvitað þráðlausri nettengingu. Við viljum benda gestum okkar góðfúslega á að Sjávarborg er gamalt hús með sál, brakandi gólfum og því nokkuð hljóðbært ef margir eru á ferli á sama tíma. Þetta hefur þó sannarlega ekki komið í veg fyrir góða hvíld og nætursvefn gesta og efumst við ekki um að gestir okkar eigi hjá okkur notalega stund.
Við hlökkum til að sjá ykkur og munum taka vel á móti ykkur, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fjölskyldur eða minni og stærri hópa.