Vatnasafn / Library of Water er langtíma verkefni skapað af Roni Horn í fyrrum bókasafni sjávarþorpsins Stykkishólms á Íslandi. Byggingin stendur á kletti með útsýni yfir hafið og þorpið. Þar er til húsa safn sem endurspeglar náin tengsl Roni Horn við einstaka jarðsögu Íslands, loftslag þess og menningu.
Vatn, úrval er safn 24 glersúlna fylltum af vatni sem safnað var úr ís af mörgum helstu jöklum Íslands. Glersúlurnar brjóta upp og endurvarpa ljósi á gúmmigólf sem búið er að greypa í breiðu orða á ensku og íslensku er öll lúta að veðrinu - innra sem ytra. Innsetningin býður upp á svigrúm til íhugunar í einrúmi jafnframt því að nýtast til allskyns félagslegra nota.
Í litlu hliðarherbergi geta gestir skoðað flokk bóka Roni Horn, To Place, sem allar hafa orðið til á Íslandi, ásamt því að hlusta á úrval frásagna fólks af veðrinu. Á árunum 2005 til 2006, að undirlagi Roni Horn, tóku Oddný Eir Ævarsdóttir, rithöfundur, bróðir hennar fornleifafræðingurinn Uggi Ævarsson, og faðir þeirra Ævar Kjartansson, útvarpsmaður, viðtöl um veðrið við um það bil hundrað einstaklinga frá Stykkishólmi og nágrenni. Veðrið vitnar um þig, setur þessa vitnisburði fram sem einskonar sameiginlega sjálfsmynd lands þar sem veðrið leikur stórt hlutverk í daglegu líf fólksi.
Neðri hæð Vatnasafns / Library of Water er gestavinnustofa fyrir rithöfund. Á hverju ári hefur rithöfundum verið boðið að búa þar í nokkra mánuði og vinna .Ýmist er boðið íslenskum eða erlendum höfundum, en fram að þessu hafa þau Guðrún Eva Mínervudóttir, Rebecca Solnit, Anne Carson, Óskar Árni Óskarsson og Oddný Eir Ævarsdóttir dvalið þar.
Artangel sá um framkvæmd þessa verkefnis ásamt Stykkishólmsbæ, Menntamálaráðuneytinu, Samgönguráðuneytinu og Fjárlaganefnd Alþingis.
Opnunartími: Opið alla daga frá 1. júní - 31. ágúst frá kl. 11 - 17.
Miðasala fyrir Vatnasafn fer fram í Norska húsinu, Hafnargötu 5.
Aðgangseyrir 2022:
Fullorðnir kr. 830,-
Nemar, eldri borgarar og hópar kr. 675,-
Frítt fyrir yngri en 18 ára
Safnapassi stykkishólmsbæjar - Vatnasafn og Norska húsið:
Fullorðnir kr. 2.080,-